Ís til kælingar
Allmargar aðferðir eru þekktar við að framleiða ís. Ein sú elsta er eflaust sú að láta hann frjósa á vötnum og tjörnum að vetri, safna honum síðan saman og geyma í kældum geymslum. Margir muna etv. eftir því þegar ís var tekinn á tjörninni í Reykjavík og víðar út um land. Ísinn gat geymst í alllangan tíma og var síðan mulinn til frekari notkunar til þess að kæla fisk.
Fljótlega fóru menn að framleiða ís með vélfrystingu og síðar komu á markaðinn ísvélar sem skiluðu ísnum í passlegum einingum, s.k. skelísvélar.
Krapaís
Á 9 áratug síðustu aldar byrjuðu menn að búa til krapa til kælingar. Það var þó ekki fyrr en seinnipart tíunda áratugarins sem íslendingar fóru að sjá þá möguleika sem fólust í að nota krapa til kælingar og þá hröðu niðurkælingu sem næst með þessari aðferð. Frá þessum upphafs dögum hefur mikið vatn runnið til sjávar og þekking manna á notkun krapans hefur stóraukist sem og þróun í búnaði til að búa til krapa.
Ístegundir
Nú í dag eru þekktar fjölmargar aðferðir til að framleiða ís og flestar þeirra í notkun enn þar sem engin ein aðferð er hentug við allar aðstæður.
Skelís: Vatn er látið renna niður kælda tromlu sem snýst. Ísinn er síðan brotinn af með sköfu eða ísbrjót og látinn falla niður í ísgeymslu, færiband eða snigil. Þessi ís er undirkældur, gjarnan -5°C til -10°C og þarf að geymast í frysti til að koma í veg fyrir samfrost. Sem dæmi Nort-Star ísvélar sem eru þekktar fyrir endingu og gæði svo og Geneglace vélar.
Plötuís: Framleiddur á samskonar hátt og skelís nema ísinn er bræddur af með heitgasi frá kæliþjöppunum. Við það losnar ísinn af plötunum og fellur niður á ísbrjót og kvarnast. Þessi ís er ekki undirkældur vegna áhrifa heitgassins og getur geymst í styttri tíma í venjulegri kældri geymslu en þarf ekki að geymast í frysti. Sem dæmi Finsam plötuísvélar sem eru í notkun allvíða hér á landi bæði til sjós og lands.
Krapaís: Framleiddur á ýmsan hátt. Meðal þekktra aðferða eru m.a. "Flo-Ice" vélar sem framleiða krapa í lóðréttum eða láréttum strokkum. Þessar vélar þurfa nokkuð háa saltprósentu til að vinna eðlilega. Sem dæmi Finsam vélar.
Einnig í hefðbundnum skelísvélum sem hefur verið breytt til að framleiða krapa. Þessi aðferð er vel þekkt hér á landi og hentar afar vel þar sem um mikið magn er að ræða. Annar kostur er að hægt er að framleiða krapa með minni saltprósentu. Sem dæmi North-Star ísvélar sem eru í allmörgum íslenskum skipum.
Þriðja aðferðin er lausn sem meira er bundin við landvinnslu og það er að framleiða krapa með því að nota skelís- eða flöguís t.d. frá ísgeymslu, mylja hann niður og blanda honum saman við saltpækil. Þannig má framleiða krapa þó saltvatn sé ekki til staðar en þá er settur upp pækiltankur sem blandar saltvatn.
Kælitækni hefur á að skipa búnaði og þekkingu til þess að bjóða allar ofangeindar lausnir. Í öllum tilvikum er reynt að aðlaga hentuga lausn að þörfum viðskiptavinarins.